Karólína Lárusdóttir (1944)

Karólína Lárusdóttir er fædd 1944. Hún nam við Sir John Cass College 1964 til 1965, Ruskin School of Art í Oxford Englandi á árunum 1965 til 1967 og Barking School of Art 1977 til 1980. Hún varð félagi í Hinu konunglega félagi breskra vatnslitamálara árið, The Royal Watercolor Society 1992. Það félag var stofnað 1804 og hefur í gegnum tíðina haft innan sinna vébanda marga virtustu og frægustu vatnslitamálara 19. og 20. aldarinnar. Karólína er einnig félagi í The New Art Club og Royal Society fo Painter-Printmakers frá árinu 1986. Þá hefur Karólína unnið til fjölda verðlauna og má þar nefna The Dicks and Greenbury 1989, The 4th Triennale Mondiale D'Estampes Petit Format í Frakklandi 1990 og bjartsýnisverðlaun Bröste 1997.

Karólína hefur búið og starfað í Bretlandi frá því hún fór til náms 1965. Einstök sýn hennar á Ísland og andrúmsloftið á Íslandi hefur í síðustu áratugum unnið sér sess í hjörtum Íslendinga og gert hana af einum vinsælasta listamanni okkar. Hún hefur haldið fjölda einkasýninga á Íslandi og Englandi en einnig í Frakklandi, Danmörku, Ítalíu, Spáni, Namibíu og Suður-Afríku. Þá hefur hún tekið þátt í fjölda samsýninga í Evrópu, Afríku og Bandaríkjunum og má þar nefna Icelandic Art 2000: Modern Treasures sem haldin var í tengslum við hátíðahöld í tilefni þess að 1000 ár voru frá landnámi norrænna manna í Vesturheimi. Sú sýning var samstarfsverkefni íslenska sendiráðsins í Washington, landafundanefndar, AGS og Gallerís Foldar. Sýningarstjóri var Elínbjört Jónsdóttir. Karólína hefur einnig tekið reglulega þátt í sumarsýningum Konunglegu listaakademíunnar í London frá 1978.