Ástþór Magnússon (Thor Magnusson) hefur áratuga langa reynslu af ljósmyndun. Dagblaðið The Sunday Times sendi hann til Vestmannaeyja þegar gosið hófst 1973. Myndir hans af gosinu voru þær fyrstu til að birtast á alþjóðlegum vettvangi á vegum Camera Press ljósmyndabankans í London.
Eftir að Ástþór lauk námi í tísku- og auglýsingaljósmyndum frá Medway College of Art and Design (University for the Creative Arts) í Bretlandi, starfrækti hann ljósmyndastofu og framköllunarfyrirtæki í mörg ár. Seinna hóf hann störf á öðrum vettvangi og snéri sér einnig að góðgerðarstörfum.
Ástþór stofnaði fyrsta kreditkortafyrirtækið á Íslandi, Eurocard/Mastercard, árið 1979. Hann stofnaði og var framkvæmdastjóri Goldfeder Group á árunum 1984-1995 og var einn af frumkvöðlum Evrópu á sviði gagnvirkrar verslunartækni. Hann hefur einkaflugmannspróf og starfrækti flugþjónustu á árunum 1990-1995.
Ástþór stofnaði Frið 2000 í Reykjavík 1995. Friður 2000 (Peace2000.org) hefur skipulagt ferðir jólasveinsins á stríðshrjáð svæði í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar og önnur hjálparsamtök, meðal annars Rauða krossinn og Rauða hálfmánan, og fært börnum gjafir, mat og lyf.
Ástþór var einn af fjórum forsetaframbjóðendum 1996. Hann hefur skrifað og gefið út bók um nýja sýn á alþjóðleg stjórnmál og öryggismál þjóða auk þess að skrifa fjölmargar greinar í dagblöð og tímarit um sama efni. Ástþór vill að Ísland verði í fararbroddi beins lýðræðis og standi sem alþjóðlegur viti fyrir friði í heiminum.