Ísleifur Konráðsson (1889-1972)

Einn af okkar fremstu einförum Ísleifur Sesselíus Konráðsson var fæddur 5. febrúar 1889 á prestsetrinu Stað í Steingrímsfirði á Ströndum. Foreldrar hans voru Konráð Sigurðsson og Guðrún Jónsdóttir ógift vinnuhjú og var Ísleifur því lausaleiksbarn. Ísleifur fór eins árs gamall í fóstur til Ólafar Jörundsdóttur að Hafnarhólmi, hjá henni bjó hann fram að fermingaraldri þar til hún deyr frá honum. Ólöf var hans eina móðir og má segja að með fráfalli hennar hafi Ísleifur orðið einstæðingur,

Hann vann fyrir sér frá 14. ára aldri við sjómennsku og fiskvinnslu fyrst í Drangsnesi og síðar um allt land. Hann kemur til höfuðborgarinnar 19.ára gamall  þar var  enga vinnu að hafa en hann hafði safnað nægum peningum til að láta reyna á ævintýraþrána  og sigldi því til Kaupmannahafnar. Í Kaupmannahöfn fékk hann vinnu á millilandaskipi sem sigldi á milli Kaupmannahafnar og New York, en hann steig aldrei fæti inn í stórborgina New York þar sem honum var illa við hrikalega skýjakljúfa borgarinnar og líkaði ekki að þurfa að leggjast á bakið úti á miðri götu til að sjá stjörnurnar. Lengst af vann Ísleifur samt á aðaljárnbrautarstöð Kaupmannahafnar við að pússa silfur.

Hann hélt heim til Íslands fyrir mistök að eigin sögn. Við komuna til  Reykjavíkur  átti hann ekki peninga  til að koma sér aftur til Kaupmannahafnar og hóf störf við Eyrina í Reykjavík. Við uppskipun  og fiskvinnslu í Reykjavík vann Ísleifur fram að eftirlaunaaldri eða til 70 ára aldurs.

Stuttu eftir að Ísleifur lauk sinni vinnuskyldu hittir hann svo mann á göngu í Reykjavík sem vísaði  honum veginn og gerði honum elliárin bærileg. Sá maður var Jóhannes  Kjarval málari sem Ísleifur þekkti lítillega. Ísleifur spurði Kjarval hvort það væri ekki stórkostlegt að geta ferðast um landið og málað náttúruna , Kjarval segir honum að gera einfaldlega slíkt hið sama og Ísleifur tók hann á orðinu fer rakleitt í verslun sem seldi myndlistarvörur og hóf að mála.  Sjálfur sagðist hann vart geta sofið vegna áhuga á því að mála og málaði nær daglega þar til hann deyr 83 ára gamall á Hrafnistu í Reykjavík og liggur nú grafinn á heimaslóðum á Ströndum.

 

.  Ísleifur gat lítið ferðast um heimaslóðir sínar á Ströndum vegna líkamlegs ástands síns  og erfiðra samgangna og málaði því allt eftir minni. Í málverkum af Drangsnesi sem þar sem Ísleifur steig sin fyrstu skref í fiskvinnslu málaði hann ekki einungis eftir minni heldur bætti við meiri og stærri byggð, svo að yngri Strandamenn þekktu nú staðinn í framtíðinni.