Jóhannes S. Kjarval (1885-1972)

Jóhannes Sveinsson Kjarval fæddist í Efriey í Skaftafellssýslu árið 1885. Fjögurra ára var hann sendur í fóstur til frændfólks síns í Geitavík í Borgarfirði eystra og ólst þar upp.

Þegar Kjarval var 17 ára fluttist hann til Reykjavíkur. Hann hafði lengi verið áhugasamur um myndlist og einsetti sér að mennta sig og taka framförum á listabrautinni. Vann hann fyrir sér með sjómennsku og ýmsum störfum í landi en teiknaði og málaði þegar tími vannst til.

Kjarval var ljóst að til að ná árangri í myndlist yrði hann að fara utan. Síðla árs 1911 sigldi hann með togara til London með það að markmiði að komast inní Konunglega listaháskólann. Ekki fékk Kjarval skólavist en hann notaði tímann í London til að skoða söfn og mála. Næsta vor hélt hann til Kaupmannahafnar. Að loknu árs teikninámi við tækniskóla fékk hann inngöngu í Konunglega listaháskólann. Þar stundaði hann nám næstu árin og brautskráðist í árslok 1917.

Árið 1922 fluttist Kjarval til Íslands ásamt danskri konu sinni, Tove, og börnum þeirra, Sveini og Ásu. Hann var staðráðinn í því að búa og mála á Íslandi. Kjarval var mjög upptekinn af hlutverki sínu sem listamaður í samfélagi sem átti sér litla myndlistarhefð. Fór svo að Kjarval og Tove skildu eftir þriggja ára dvöl á Íslandi og fór hún til Danmerkur með bæði börnin. Upp frá því bjó Kjarval einn á vinnustofu sinni og lifði fyrir listina.

Í ársbyrjun 1928 fór Kjarval til Parísar og dvaldist þar um fimm mánaða skeið. Eftir heimkomuna hélt hann áfram að mála og varð Íslenskt landslag eitt af hans megin viðfangsefnum. Hann var oft dögum og vikum saman úti í náttúrunni og hafði aðsetur í tjaldi en vann undir berum himni. Ýmist fullvann hann myndirnar úti eða tók þær heim á vinnustofu og kláraði þær þar. Það hefur þurft sterkan og hraustan mann til að búa í botnlausu bómullartjaldi á ýmsum árstímum og hvernig sem viðraði.

Á fimmtugsafmæli Kjarvals 1935 var haldin yfirlitssýning á verkum hans í Menntaskólanum í Reykjavík. Með þeirri sýningu festi hann sig í sessi sem einn ástsælasti og virtasti málari þjóðarinnar. Vinsældir hans jukust og fjárhagurinn batnaði. Árið 1945 sýndi hann 41 mynd í Listamannaskálanum. Af þeim seldust 38 strax fyrsta klukkutímann. Á hálfum mánuði sáu um 14 þúsund manns sýninguna, eða um þúsund gestir á hverjum degi.

Kjarval málaði víða um land. Fram til 1939 fór hann aðallega á Þingvöll og aðra staði í nágrenni Reykjavíkur. Bágur efnahagur takmarkaði möguleika hans til ferðalaga. Eftir 1939 ferðaðist Kjarval meira um landið. Staðir sem hann fór oft á að mála voru: Þingvellir, Svínahraun, Álftanes, Snæfellsnes, Skagaströnd, Vestur-Skaftafellssýsla og Borgarfjörður eystri.