Síðasta uppboð ársins

Síðast uppboð ársins hófst fimmtudaginn 15. desember á vefnum uppboð.is.

Á þessu uppboði verður í fyrsta skipti boðið um eðal armbandsúr. Verðmat úrsins er ein milljón króna en það er af Tag Heuer gerð alsett 65 demöntum og hvítagulli.

Auk úrsins eru fjölmörg listaverk á uppboðinu eftir marga af þekktustu listamönnum þjóðarinnar. Má þar nefna tvö verk eftir Gunnlaug Blöndal, litla vatnslita mynd af fiskverkafólki raða síld og olíumálverk frá Barcelona. Á uppboðinu er einnig fallegt málverk úr Stykkishólmi eftir Jón Þórleifsson.

Meðal verka eftir samtímalistamenn eru olíumálverk eftir Tolla, Sossu, Sigurbjörn Jónsson og Kristján Davíðsson auk þriggja verka eftir Sigurjón Jóhannsson. Þá eru nokkur verk frá Gleri í Bergvík, Koggu og Þóru Sigurþórsdóttur á uppboðinu.

Boðið verður upp stórt olíumálverk eftir listamanninn Hjalta Parelius en allt andvirði þess verður gefið Fjölskylduhjálp Íslands.

Hjalti segir um þessa rausnarlegu gjöf sína:

"Undanfarið hefur ekki farið framhjá mér frekar en öðrum þau fjárhagslegu vandræði sem steðja að einstaklingum með börn á atvinnuleysisbótum og öðrum bótum.

Næstum á hverjum degi er fjallað um einstæðar mæður og félitlar fjölskyldur sem ekki hafa efni á fötum á börn sín né að halda hógvær jól.

Ég tel það skyldu mína sem manneskju að leggja mitt af mörkum ef ég get. Á þessum tímum þarf að gefa af sér. Bæði í þolinmæði gegn betri tíð og gegn samborgurum sínum í neyð.

Sjálfur hef ég ekki mikið fé á milli handanna. En geti ég gefið mynd á uppboð mun allur ágóði, þar með talin tekjur frá Myndstef renna til þeirra sem á þurfa að halda, geri ég það.

Því hef ég ákveðið að gefa myndina "Wonderwoman" (195cm x 130cm, olía á striga) á uppboð þar sem allur ágóði rennur til Fjölskylduhjálpar Íslands.

Ástæða þess að ég valdi þá mynd er hreinlega sú að einstæðar mæður (oftar tilfellið en einstæðir feður) eru ofurhetjur í mínum augum. 

Það krefst ótrúlegs styrks að vera einstæður þar sem reynir á sálrænt þrek og baráttu við andstreymi. Við gerum allt fyrir börnin okkar en stundum þarf meira.

Ég vona innilega að þessi mynd hljóti athygli fyrir góðan málstað og sem hæsta verð fáist fyrir hana.

Látum gott af okkur leiða.

Virðingarfyllst.

Hjalti Parelius Finnsson

Myndlistamaður"


Gallerí Fold mun einnig gefa uppboðsgjöld sín af sölu verksins til Fjölskylduhjálpar Íslands.

Uppboðinu lýkur fimmtudaginn 22. desember.