Aðventulisthátíð í Gallerí Fold 10. og 11. desember

Gallerí Fold efnir til aðventulistahátíðar nú um helgina þar sem þrjár sýningar verða opnaðar. Í Baksal gallerísins verður opnuð sölusýning á verkum Þorvaldar Skúlasonar en þau koma öll úr einkaeigu og hafa ekki áður komið fyrir sjónir almennings.

Lítil sýning á hestamyndum Halldórs Péturssonar sem er fólki vel kunnur fyrir myndskreytingar sínar, meðal annars í bókinni Helgi skoðar heiminn, verður opnuð.

Í Hliðarsal gallerísins er árleg jólasýning á verkum samtímalistamanna. Að þessu sinni eru verkin ríflega sjötíu hengd upp í Salon stíl. 

Guðbjörn Guðbjörnsson óperusöngvari syngur jólalög við undirleik Guðbjargar Sigurjónsdóttur kl. 15 báða dagana og strengjahljómsveit stúlkna úr Garðabæ leikur létt jólalög kl. 14  og 16.

Á milli kl. 14 og 15 á laugardag mun Daði Guðbjörnsson árita nýju listaverkabókina sína sem gefin var út í tilefni sýningar hans á Kjarvalsstöðum sem nú stendur yfir. Á sunnudag á milli kl. 14 og 15 mun svo Gunnella árita bækur sínar.

Starfsfólk gallerísins kynnir einstök gjafabréf gallerísins sem unnin hafa verið í samvinnu við listamennina Daða Guðbjörnsson og Sigurjón Jóhannsson en þeir hafa gert sérstök listaverk sem fylgja gjafabréfunum.

Þá verður börnum boðið upp á kakó og meðlæti.